Skuldatryggingarálag bankanna hefur komið hratt niður í vikunni. Skuldatryggingarálag Kaupþings hefur lækkað um 350 punkta í vikunni og stendur nú í 630 punktum.

Álag Glitnis hefur lækkað um 305 punkta og er nú 680 punktar og álag á skuldatryggingar Landsbankans hefur lækkað um 240 punkta í þessari viku og stendur nú í 410 punktum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar segir að álag bankanna sé nú komið á svipaðar slóðir og í byrjun júní en álagið fór stigvaxandi eftir því sem leið á sumarið og náði hápunkti  í 1.050 punktum hjá Kaupþingi og Glitni og hæst fór það upp í 700 á skuldatryggingum Landsbankans.

Álagspróf hefur jákvæð áhrif

Þá kemur fram í Morgunkorni  Glitnis að skuldatryggingarálag ríkissjóðs er nú í 245 punktum en álag ríkissjóðs hefur haldist mun stöðugra en álag bankanna undanfarna mánuði og hefur haldið sig í grennd við 250 punkta frá miðjum júnímánuði.

„Eins og við sögðum frá í Morgunkorni fyrr í vikunni þá eru nokkrar samverkandi ástæður fyrir mikilli lækkun skuldatryggingarálagsins nú,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„Viðskipti á markaði með skuldatryggingarálag eru nú að aukast á nýjan leik eftir daufan sumarmarkað, uppgjör bankanna hafa að líkindum jákvæð áhrif og þá er ekki útilokað að niðurstöður álagsprófs Fjármálaeftirlitsins sem birtar voru í gær hafi haft jákvæð áhrif á þróun skuldatryggingarálagsins, en fjórir stærstu viðskiptabankarnir stóðust allir prófið. Þessar miklu hreyfingar undanfarna daga á álagi skuldatrygginga bankanna þykja þó fyrst og fremst sýna hversu skammt er milli öfga á þessum markaði og hversu óskilvirkur og grunnur markaðurinn með skuldatryggingar er í raun og veru eins og áður  hefur verið bent á.“