Afkoma MBIA, stærsta skuldatryggingafélag heims, á síðasta fjórðungi var sú versta í sögu þess. Félagið tapaði 2,3 milljörðum Bandaríkjadölum á síðasta fjórðungi og dugðu tíðindin til þess að auka skjálftavirkni á mörkuðum enn frekar. MBIA leitar nú leiða til þess að styrkja eiginfjárstöðu sína í kjölfar hrunsins á verði eignatryggða skuldabréfavafninga í tengslum við undirmálslán.

Samkvæmt Bloomberg-fréttaveitunni hafa skuldatryggingafélögin tryggt 2,4 billjónir dala af skuld og telja sérfræðingar fjárfestingabankans JP Morgan Chase að þau tapi að andvirði 41 milljörðum dala. Sérfræðingar hjá Oppenheimer & Co telja að bankar geti þurft að afskrifa um 70 milljarða dala lækki lánshæfismat skuldatryggingafélaganna.

Tilkynningin um afkomu MBIA kom á svipuðum tíma að matsfyrirtækið S&P huggðist endurskoða mat sitt á skuldabréfum og skuldabréfavafningum að andvirði 534 milljörðum dala. Fram kemur í frétt breska blaðsins The Times að slíkt endurmat gæti orðið að myllusteini um háls markaðarins með fjármálagjörninga í tengslum við fasteignalán og fram kemur í frétt blaðsins að það gæti aukið afskriftir banka og fjármálastofnanna vegna undirmálslána í meira 265 milljarða dala. Nú þegar hafa 135 milljarðar dala verið afskrifaðir.