Álag á skuldatryggingar bankanna á eftirmarkaði heldur áfram að hækka í dag. Að sögn sérfræðinga er markaðurinn nú byrjaður að bregðast við þeim tíðindum sem bárust fyrir jól að S&P lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs. Þá segja sérfræðingar að tilkynning Glitnis um skuldabréfaútgáfu í bandarískum dollurum frá því í morgun hafi haft slæm áhrif á markaðinn.  Álag á skuldatryggingum Kaupþings er nú í 51 punkti og hefur hækkað um 4,5 punkta síðan  S&P breytti lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Álag á skuldatryggingum Glitnis hefur einnig hækkað um 4,5 punkta og stendur nú í 36,5 punktum og Landsbankinn hefur hækkað um 5 punkta og stendur í 41 punkti.


Verðið á skuldatryggingum bankanna er að öllu jöfnu notað sem mælikvarði á það traust sem bankarnir njóta á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Því lægra sem álagið er því betra. Eins og kunnugt hækkaði álag á skuldatryggingar bankanna mjög í upphafi síðasta árs í kjölfar þess að matsfyrirtækið Fitch  breytti horfum sínum fyrir lánshæfismat ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar. Sérfræðingar gera ekki ráð fyrir að sagan endurtaki sig nú í kjölfar  tilkynningar S&P. Til þess að slíkt gerist þurfa fleiri neikvæð tíðindi sem snerta þennan markað að koma til samtímis. Líkt og var upp á teninginn þegar Fitch breytti horfum sínum fyrir lánshæfi ríkissjóðs í febrúar fyrir ári síðan.


Þrátt fyrir hækkun um nokkra punkta nú er álagið enn lágt í samanburði við meðaltal síðasta árs en álagið náði hæstum hæðum síðastliðið vor þegar álag Kaupþings fór upp í 100 punkta, Landsbankans upp í 105 punkta og álagið á skuldatryggingum Glitnis var 80 punktar.