Þeir sem hafa selt skuldatryggingar á Landsbankann á undanförum árum gætu þurft að reiða fram þær tryggingar á næstunni. Alþjóðlega skiptasamninga- og afleiðusambandið (ISDA) hefur nú til umræðu hvort inngrip Fjármálaeftirlitsins í Landsbankann kalli á greiðslu skuldatrygginganna. Þetta kemur fram hjá Dow Jones.

Spurningin snýst um hvort svokallaður „skuldaviðburður “ [e. credit event] hafi átt sér stað. Einn skuldamiðlari hjá ónefndum banka segir í samtali við Dow Jones að í tilfelli Landsbankans sé slíkt líklegt.

Endanlegt gjaldþrot þarf ekki að eiga sér stað

„Þetta hefur öll merki þess að inna þurfi af hendi greiðslu trygginga til þeirra sem eru með stöðu í skuldatryggingum bankans. Við höfum hins vegar haft svipaðan grun áður og haft rangt fyrir okkur,“ segir á Dow Jones.

Fyrirtæki þurfa ekki alltaf að verða endanlega gjaldþrota svo til skuldaviðburðar komi. Til dæmis myndaðist greiðsluskylda fyrir seljendur skuldatrygginga á húsnæðislánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac þegar bandaríska ríkið tók þá yfir, þrátt fyrir að eigendur skuldabréfa á sjóðina hafi fengið ákveðna vernd.