Seljendur greiðslufallstrygginga á skuldabréf íslensku bankanna þurfa að öllum líkindum að greiða meira en sjö milljarða dollara í kjölfar þess að íslenskir eftirlitsaðilar tóku yfir innlenda starfsemi þeirra. Skuldabréf bankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, eru nú nánast verðlaus á mörkuðum. Sérfræðingur Citigroup segir í samtali við Guardian að bréfin geti vart lækkað meira í verði en nú er orðið. Líkur á verðhækkunum eru litlar sem engar þar sem fjárfestar hafi almennar áhyggjur af stöðu íslenska ríkisins.

Sökum þess að bréfin eru nánast eða alveg verðlaus munu skuldatryggjendur þurfa að greiða á milli 94% og 100% af upphæðunum sem þeir skuldbundu sig til að tryggja.

Í frétt Guardian segir að 168 aðilar hafi skráð sig vegna uppgjörs á skuldatryggingum bankanna, og þar of voru 124 aðilar með stöðu í skuldatryggingum allra þriggja bankanna.

Meðal þeirra sem taka þátt eru Nordea, sem hefur stöðu seljanda og kaupanda í fjölda skuldatrygginga á bankana. Sem dæmi um aðra aðila má nefna American International Group – AIG, vogunarsjóðirnir Tudor Investment Corp og Raptor Global Portfolio.

Heildarnafnvirði samninga með skuldatryggingar Kaupþings nema 34,3 milljörðum dollara hjá Kaupþingi, 17,5 milljörðum dollara hjá Glitni og 19,2 milljörðum hjá Landsbankanum. Þessar tölur segja hins vegar ekki alla söguna þar sem fjöldi aðila er bæði með stöðu seljanda og kaupanda í tryggingum bankanna. Því núllast eitthvað út, en samkvæmt upplýsingum Guardian er nettóstaða í tryggingum 3,8 milljarðar dollara hjá Kaupþingi, 2 milljarðar hjá Glitni og 1,8 milljarðar hjá Landsbankanum. Eins og áður sagði verða á milli 94% og 100% trygginganna greiddar út, sem þýðir að heildargreiðslur munu nema á milli 7,1 og 7,6 milljarða dollara.

Þetta er fyrsta uppgjör skuldatrygginga í kjölfar greiðslufalls í Evrópu. Í Bandaríkjunum hafa nokkur slík uppgjör átt sér stað. Til að mynda námi heildargreiðslur vegna skuldatrygginga Lehman Brothers 5,2 milljörðum dollara og 1,3 milljörðum í kjölfar gjaldþrots Washington Mutual.

Lokagreiðslur eiga að fara fram 20. nóvember næstkomandi. Uppgjör þetta mun verka til enn frekara taps á skuldabréfavafningum af ýmsu tagi, en bréf íslensku bankanna voru sérstaklega vinsæl til smíða á slíkum gerningum. Matsfyrirtækið S&P hefur metið alls 3.771 mismunandi eignatryggða vafninga og gefið þeim einkunn. Um 9% af þeim innihalda einn af íslensku bönkunum, önnur 9% tvo og enn önnur 14% alla þrjá. Þeir vafningar sem innihalda alla bankana þrjá munu því að öllum líkindum lækka um 2-3% í verði, að því er Guardian greinir frá.