Skuldatryggingarálag íslensku bankanna þriggja hefur lækkað töluvert í dag eða um  40-100 punkta.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings en tekið er fram að hafa skal í huga að markaðurinn með skuldatryggingar bankanna hefur verið nánast því dauður í sumar þar sem viðskiptin eru lítil sem engin.

„Lækkandi álag segir því kannski fyrst og fremst að einhverjir hafa kosið að eiga viðskipti á markaðinum fremur en nokkuð annað. Að mati Greiningardeildar má þó rekja lækkandi skuldatryggingarálag til þess að uppgjör bankanna þriggja hafi aukið traust á þeim í augum erlendra skuldabréfafjárfesta. Raunar er það svo að íslensku bankarnir aldrei fengið eins jákvæða umfjöllun eftir uppgjör sín hjá erlendum skuldabréfagreinendum (credit analysts) eins og nú,“ segir í Hálffimm fréttum.