Skuldatryggingarálag (CDS) íslensku viðskiptabankanna hefur lækkað umtalsvert að undanförnu og liggur nú á lægra bili en áður en neikvæð umræða spannst um fjármögnun bankanna á síðasta ári, segir greiningardeild Glitnis.

Skuldatryggingarálag Landsbankans til fimm ára er 19 punktar, hjá Kaupþingi er það 29 punktar og 24 punktar hjá Glitni. Tryggingarálag Landsbankans hefur lækkað um 21 punktar frá því í ársbyrjun 2006, Kaupþings um 13 punktar og Glitnis um 8 punktar, að sögn greiningardeildarinnar.

?Skuldatryggingaálög banka hafa almennt farið lækkandi í heiminum enda virðist mikið magn af peningum í umferð. Tryggingarálag bankanna, sérstaklega Landsbankans og Kaupþings, hefur verið umfram lækkun álags á markaðnum í heild,? segir greiningardeildin.

Hún segir margir áhrifaþættir hafa áhrif á tryggingarálag banka, suma geta bankarnir haft áhrif á en aðra ekki.

?Meðal áhrifaþátta sem bankarnir geta ekki haft áhrif á eru áhættufælni á mörkuðum og peningamagn í umferð. Viðbrögð bankanna við gagnrýni erlendra aðila hefur þó haft mest um það að segja að tryggingarálag þeirra hefur farið lækkandi.

Þar á meðal má nefna bætta upplýsingagjöf, minni markaðsáhættu og afnám krosseignarhalds. Í tilfelli Landsbankans hefur efling innlána og þ.a.l. hærra hlutfall innlána af heildarfjármögnun að líkindum stuðlað að lækkun tryggingarálags bankans umfram hina íslensku bankana,? segir greiningardeildin.