Álag á erlendar skuldir ríkissjóðs hefur stigið nokkuð í vikunni. Það stóð í 258 stigum 7. maí síðastliðinn en hefur hækkað í tvígang síðan þá. Nú er það komið í 283 stig og hefur það ekki verið hærra síðan 11. apríl síðastliðinn.

Til samanburðar stóð skuldatryggingarálagið í rétt rúmum 200 stigum fyrir ári síðan.

Skuldatryggingarálagið endurspeglar þau markaðskjör sem bjóðast á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum. Þegar álagið stendur í 258 stigum merkir það að sá sem kaupir skuldabréf þarf að greiða 2,58% álag af nafnvirði skuldabréfs til að tryggja sig fari svo að útgefandi skuldabréfsins geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Skuldatryggingarálagið nú er ekkert samanborið við álagið á skuldabréf gömlu viðskiptabankanna. Rétt áður en þeir fóru í þrot var álagið á skuldir þeirra í kringum 1.500 stigin sem jafngilti því að greiða þurfti 15% af nafnvirði skuldabréfs til að tryggja það gegn greiðslufalli.