Skuldatryggingarálag Ríkissjóðs Íslands hefur lækkað nokkuð á síðustu dögum. Í lok dagsins í gær var álagið til 5 ára 317 punktar, 3,17%, sem eru 20 punktum lægra en það var um miðja síðustu viku. Að meðaltali hefur álagið verið um 440 punktar á þessu ári. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka. Þar segir að ekki er um að ræða almenna lækkun á skuldatryggingarálagi á mörkuðum og hefur í raun hækkað í mörgum öðrum ríkjum.

„Meðaláhættuálag á ríki í Vestur Evrópu var í gær 157 punktar en í ársbyrjun var það rétt undir 100 punktum. Það ætti ekki að koma á óvart að þessa hækkun álagsins megi að mestum hluta rekja til Grikklands, Portúgals, Spánar og Írlands enda hafa fá ríki fengið jafn mikla umfjöllun í fjölmiðlum um stöðu efnahagsmála, og þá neikvæða, en einmitt þau. Á þetta sérstaklega við um gríska ríkið en í lok dags í gær stóð skuldatryggingarálag þess í 825 punktum sem er rúmum 540 punktum hærra en það var í byrjun þessa árs. Í þessum samanburði, þ.e. á meðal ríkja Vestur Evrópu, hefur álagið hækkað næstmest á portúgalska ríkið. Í byrjun árs var það rétt rúmir 90 punktar en í lok dags í gær stóð það í 283 punktum. Á sama tíma hefur álagið á Spán hækkað um 105 punkta (þ.e. úr 114 í 219 punkta) og álagið á Írland um 88 punkta (þ.e. úr 158 í 246 punkta). Í heildina litið hefur í raun áhættuálagið lækkað mest á þessu tiltekna tímabili á íslenska ríkið af öllum ríkjum Vestur Evrópu og nemur punktalækkunin 95 punktum. Þrátt fyrir þessa þróun er skuldatryggingarálag á íslenska ríkið enn hið annað hæsta á meðal þeirra ríkja Vestur-Evrópu sem seldar eru skuldatryggingar fyrir.“