Skuldatryggingarálagið á ríkissjóð hefur lækkað hratt upp á síðkastið og fór um mánaðamótin í síðustu viku undir 300 stigin. Nú stendur álagið í 283 stigum og hefur það ekki verið lægra síðan seint í október á síðasta ári.

Skuldatryggingarálagið miðar við tryggingu á fimm ára skuldabréfum. Það að álagið standi í 283 stigum þýðir að borga verður 2,83% af nafnverði skuldabréfs til fimm ára til að tryggja það fyrir greiðslufalli. Áhrif skuldatryggingarálagsins getur verið mikil á lánsfjármöguleika ýmissa ríkisfyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar. Hækkar álagið er dýrara fyrir bæði ríkissjóðs og ríkisfyrirtæki að taka lán á erlendum vettvangi.

Álagið fór hæst í 349 stig í nóvember í fyrra.

Það er hins vegar langt frá þeim himinhæðum sem álagið snerti í kringum bankahrunið. Þá fór það yfir 1.500 stigin sem jafngildir að greiða þurfti 15% af nafnverði skuldabréfs til fimm ára til að tryggja það fyrir greiðslufalli.