Skuldatryggingarálag á ríkissjóð Íslands hefur hækkað nokkuð frá því um miðjan apríl. Hækkunin er í takti við almenna þróun á mörkuðum, að því er segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag.  Fimm ára skuldatryggingarálag á ríkissjóð var þannig 258 punktar í gær, sem er svipað álag og í ársbyrjun. Lægst fór álagið í 216 punkta þann 12. apríl síðastliðinn og hafði það þá ekki verið lægra frá því fyrir hrun. Álagið hefur raunar lækkað lítillega undanfarna viku eftir að hafa hæst farið í 267 punkta undir lok aprílmánaðar.

Skuldatryggingarálag 3.5.2011
Skuldatryggingarálag 3.5.2011

Skuldatryggingarálag samkvæmt upplýsingaveitu Bloomberg. Stækka má myndina með því að smella á hana.

Í morgunkorni segir að þróunin hér sé í takt við þróun í Evrópu. „Aukin áhættufælni hefur átt mestan þátt í að þrýsta upp skuldatryggingarálagi erlendis undanfarið. Ef horft er til einfalds meðaltals af skuldatryggingarálagi landa Vestur-Evrópu kemur upp úr dúrnum að álagið er á svipuðum slóðum og um síðustu áramót, rétt eins og raunin er með íslenska álagið. Viðvarandi fréttir af vandræðum Írlands, Portúgals og Grikklands hafa átt sinn þátt í að ýta meðalálaginu upp síðustu vikur. Þessi lönd hafa einnig öll sætt því að lánshæfiseinkunnir þeirra hafa verið lækkaðar undanfarið.

Niðurstaða S&P mikilvæg
Fróðlegt verður að fylgjast með þróun skuldatryggingarálags Íslands næstu mánuði, enda gefur það vísbendingu um þau kjör sem ríkissjóður gæti staðið frammi fyrir þegar ráðist verður í skuldabréfaútgáfu í erlendum gjaldmiðli, eins og áætlað er seinna á árinu. Þó verður að taka skuldatryggingarálaginu með töluverðum fyrirvara þar sem viðskipti með skuldatryggingar á Ísland eru afar strjál. Þróunin á næstu vikum mun væntanlega ráðast að miklu leyti af því hver verður niðurstaða matsfyrirtækisins Standard&Poor's (S&P) varðandi lánshæfiseinkunn Íslands, en fyrirtækið setti einkunnina á athugunarlista með neikvæðum vísbendingum í kjölfar Icesave-atkvæðagreiðslunnar. Söguleg gögn frá S&P sýna að undanfarin 20 ár hafa að jafnaði liðið 45 dagar frá því einkunn ríkis er sett á athugunarlista þar til niðurstaða liggur fyrir, og hefur niðurstaðan í 70% tilfella verið lækkun einkunnar.“