Skuldatryggingarálag á ríki Vestur-Evrópu hefur farið hækkandi að undanförnu samkvæmt greiningu Íslandsbanka frá því í morgun. Í greiningunni kemur fram að enn og aftur megi rekja þróunina til áhyggja manna af skuldavanda evruríkjanna og þeirra hræringa sem verið hafa í efnahagsástandi margra ríkja þar.

Skuldatryggingarálagið var að meðaltali 314 punktar í lok dags í gær á meðal ríkja Vestur-Evrópu, að Grikklandi undanskildu, en hafði verið um 277 punktar um síðustu áramót. Ástæðan fyrir því að Grikkland er tekið út er að það bjagar samanburðinn verulega enda stóð það í 8.751 punkt í gær. Fyrir utan Grikkland var álagið í gær hæst á Portúgal sem stóð 1.170 punktum en á eftir koma Írland (723 punktar), Spánn (599 punktar) og svo Ítalía (565 punktar).

Samkvæmt greiningu Íslandsbanka hefur þessi órói á fjármálamörkuðum erlendis hefur sett sitt mark á skuldatryggingarálagið á Ísland og hefur álagið fylgt almennri þróun markaðarins. Að þeirra mati er ekki hægt að rekja hækkandi áhættuálag á Ísland til einstaka viðburða eða aðstæðna í efnahagslífinu hér á landi. „Þvert á móti hafa horfur hér fremur verið að glæðast undanfarið og má í því efni nefna nýútkomnar hagvaxtarspár OECD og Seðlabankans en í þeim báðum er reiknað með meiri hagvexti á þessu og næsta ári en áður var búist við og að hagvöxturinn verði vel viðunandi í alþjóðlegum samanburði," segir enn fremur í greiningunni.

Í lok dags í gær stóð álagið á Íslandi í 303 punktum og er fimmta hæsta álagið í samanburðinum á ríkjum Vestur-Evrópu.