Álag á erlendar skuldir ríkissjóðs lækkaði um átta punkta í dag. Það stóð í 266 punktum fyrir helgi en var í morgun komið niður í 258 punkta. Skuldatryggingarálagið er á svipuðum slóðum og á sama tíma í fyrra.

Skuldatryggingarálagið hefur sveiflast lítillega upp á síðkastið.

álagið stóð í sjö punktum fyrir fimm árum, á þessum degi í maí árið 2007. Það hækkaði í takti við erfiðleika á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og var komið í kringum 1.500 stigin um það leyti sem viðskiptabankarnir fóru á hliðina. Eftir hrunið fór það lægst í 200 punkta í júní í fyrra.

Skuldatryggingarálagið miðar við tryggingu á fimm ára skuldabréfum. Það að álagið standi í 258 punktum þýðir að borga verður 2,83% af nafnverði skuldabréfs til fimm ára til að tryggja það fyrir greiðslufalli. Áhrif skuldatryggingarálagsins getur verið mikil á lánsfjármöguleika ýmissa ríkisfyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar. Hækkar álagið er dýrara fyrir bæði ríkissjóðs og ríkisfyrirtæki að taka lán á erlendum vettvangi.

Þegar álag var í hæstu hæðum jafngilti það að greiða þurfti 15% af nafnverði skuldabréfs til fimm ára til að tryggja það fyrir greiðslufalli.