Ávöxtunarkrafan á ítölsk ríkisskuldabréf stóð í tæplega 7,2% í gær en algengt er að talað sé um að ríki þurfi utanaðkomandi hjálp þegar hún fer yfir 7%. En skuldavandi evruríkjanna hefur verið að smitast til annarra landa, ekki síst til Spánar og Frakklands. Ávöxtunarkrafan á 10 ára frönsk ríkisskuldabréf fór í gær í 3,7% en fyrir aðeins um tveimur mánuðum var hún 2,5%. Ávöxtunarkrafan er enn sem komið er langt undir hættumörkum en engu síður er hún um 2% hærri en á þýsk ríkisskuldabréf.

Efast um vilja Seðlabanka Evrópu

Seðlabanki Evrópu hefur keypt ríkisskuldabréf, einkum og sér í lagi ítölsk og frönsk, en fjárfestar efast um getu skuldum hlaðinna evruríkja til að snúa hlutum til betri vegar og um langtímavilja Seðlabanka Evrópu til að grípa inn í ; fram til þessa hefur hann aðeins keypt skuldabréf með óreglulegum hætti og aðeins í því magni að það hefur rétt dugað til að lægja verstu öldurnar tímabundið. „Pressan er á Seðlabanka Evrópu. Það er gerð krafa um að bankinn grípi inn í með víðtækari hætti sem lánveitandi til þrautavara. En hann hefur fram til þessa ekki verið reiðubúinn til þess,“ hefur Reuters eftir sérfræðingi hjá Commerzbank.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.