Vegna nýgerðs kjarasamnings sveitarfélaganna og grunnskólakennara hækka lífeyrisskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) um 6,4 milljarða króna, en í lok árs 2003 námu heildarlífeyrisskuldbindingar B-deildar LSR vegna grunnskólakennara 64,3 milljörðum króna.

Á árinu 1996 var samið um það milli ríkisins og sveitarfélaganna að rekstur grunnskóla skyldi flytjast yfir til sveitarfélaganna. Samkomulagið fól m.a. í sér að lífeyrisskuldbindingar vegna grunnskólakennara, sem þá voru starfandi eða komnir á eftirlaun, skyldu áfram vera á ábyrgð ríkissjóðs. Jafnframt skyldu sveitarfélögin greiða 9,5% viðbótariðgjald til ríkissjóðs til að mæta lífeyrisskuldbindingum vegna grunnskólakennara.

Kjarasamningur grunnskólakennara nær til ársins 2008 en samkvæmt honum hækka skuldbindingar vegna lífeyrisþega á eftirmannsreglu um 20% og um 17% vegna starfandi kennara. Í B-deild LSR taka lífeyrisþegar lífeyri ýmist eftir svokallaðri eftirmannsreglu (lífeyrir ræðst af launum þess sem tekur við starfi lífeyrisþegans eða kjarasamningi sem lífeyrisþegi miðast við) eða meðaltalsreglu (hækkun lífeyris ræðst af þróun launavísitölu opinberra starfsmanna).

Vægi grunnskólakennara í launavísitölu opinberra starfsmanna er á bilinu 14-15%. Afleidd breyting samningsins á launavísitöluna er því um 2,44% á samningstímabilinu. Lífeyrisskuldbindingar B-deildar vegna kennara á meðaltalsreglu og annarra sjóðfélaga, sem eiga geymd verðtryggð réttindi eða fá lífeyri samkvæmt. meðaltalsreglu, hækka í samræmi við það.

Samkvæmt framansögðu verða brúttóáhrif samningsins 10,1 milljarður króna í auknar lífeyrisskuldbindingar B-deildar LSR. Í tryggingafræðilegu mati hefur þegar verið reiknað með 1,5% launahækkun umfram verðlag árlega. Sé gert ráð fyrir þeirri hækkun út árið 2008 nemur hún samtals 6,5% á samningstímabilinu en sú forsenda ein og sér hækkar lífeyrisskuldbindingar grunnskólakennara um 3,7 milljarða króna.

Viðbótaráhrif af kjarasamningi grunnskólakennara á framtíðarskuldbindingar B-deildar LSR nema því 6,4 milljörðum króna.