Sparifélagið hyggur á hlutafjárútboð í september, október fyrir um 1.500 milljónir króna og þar af verður um þriðjungur til almennra fjárfesta samkvæmt Hönnu Björk Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra félagsins. Sparifélagið hefur heimild til að gefa út 1.700 milljónir hluta samkvæmt samþykktum og segir Hanna Björk líklegt að heimildin verði nýtt til fulls. Hún segir stefnt að því að um 30% hlutafjárins verði boðin út í almennu útboði en um 70% til fagfjárfesta.

Starfsemin færð í annað félag

Ingólfur H. Ingólfsson er stjórnarformaður Sparifélagsins en Fjármál heimilanna, sem er í 100% eigu Ingólfs, er skráð fyrir tæplega 49% hlutafjár í Sparifélaginu. Samkvæmt ársreikningi frá árinu 2009 er eigið fé þess félags neikvætt um 66 milljónir króna, tap á árinu 2009 nam rúmum 14 milljónum króna og skuldabréflán félagsins er tæpar 88 milljónir króna. Ingólfur segir stöðuna á Fjármálum heimilanna óbreytta. Rekstur Spara.is hefur verið færður í Sparifélagið, þ.e. ráðgjafastarfsemin, vefsíðan, fjárhagskerfin og námskeiðin en skuldirnar eru í Fjármálum heimilanna. "Öll starfsemin hefur verið færð yfir í raun og veru en skuldirnar sitja eftir í Fjármálum heimilanna sem ég á og ég á þá þessar skuldir sjálfur. Þetta er gert með vitund allra lánadrottna," segir Ingólfur.

Ingólfur segir umsóknina um viðskiptabankaleyfi ekki enn hafa verið lagða inn til Fjármálaeftirlitsins og segist gera sér grein fyrir því að ganga þurfi frá þessu áður en að því komi. "Það verður gert," segir Ingólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun, 28. júlí. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Skuldir aðaleigenda Sparifélagsins eftir í öðru félagi
  • Norskt fiskeldisfyrirtæki vill reisa eldisstöð á Reykjanesi
  • Auknar líkur á vaxtahækkun
  • Viðbótarlífeyrissparnaður gæti týnst í kerfinu
  • Aukning skatttekna
  • Jarðskjálftaþynnka í Japan
  • Risavaxin verkefni skila hundruðum milljóna
  • Tryggingasamningar Allianz til skoðunar
  • Fimm auðugur alþingismenn
  • Viðtal við Matthías Imsland, forstjóra Iceland Express