Sveitarfélagið Álftanes fær milljarð úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu þremur árum, með því skilyrði að það sameinist öðru sveitarfélagi. Samkomulag hefur náðst við lánardrottna um afskriftir upp á um fjóra milljarða króna. Fréttastofa RÚV greinir frá.

Skuldir Álftaness og skuldbindingar eru um 7,5 milljarða króna. RÚV greinir frá að viðræður um sameiningu sveitarfélagsins hafi staðið yfir við Garðabæ að undanförnu. Þar sé hins vegar beðið eftir hvernig fjárhagur Álftaness mun líta út. Framlagið úr jöfnunarsjóðir er að hluta til vegna fyrirhugaðar sameiningar, segir RÚV.

Þá er búið að ná samkomulagi við lánardrottna, meðal annars við Fasteign og Íslandsbanka. Samkomulagið felur í sér að skuldir verða færðar niður um tæpa fjóra milljarða. Á móti eignast Álftanes sundlaugina og íþróttahúsið, en byggingin kom afar illa við fjárhag sveitarfélagsins. Eftir niðurfellingar verða skuldir um 3,5 milljarðar króna. Það er um 250% af árlegum tekjum sveitarfélagsins, að því er RÚV greinir frá.