Skuldir bandaríska ríkisins hafa rofið 21 billjón dala múrinn í fyrsta skipti. Ríkissjóður Bandaríkjanna greindi frá þessu í gær . Jafngildir það 2,1 billjarði íslenskra króna.

Frá því að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta í byrjun árs 2017 hafa skuldir Bandaríkjanna aukist um eina billjón (e. trillion) dollara. Skuldirnar höfðu lækkað lítillega á fyrstu tíu manuðum Trumps í embætti og námu rúmlega 19,8 billjónum dollara í lok september. Í átta ára forsetatíð Baracks Obama, forvera Trumps, jukust skuldir Bandaríkjanna um 9,3 billjónir dollara.

Í febrúar síðastliðnum staðfesti Trump lög sem fresta átökum um skuldaþak alríkisstjórnarinnar, en það gefur færi á ótakmarkaðri lántöku fram til 1. mars á næsta ári. Hagfræðingar gera almennt ráð fyrir vaxandi hallarekstri í Bandaríkjunum á komandi árum. Trump hefur boðað aukin ríkisútgjöld á sama tíma og skattar verða lækkaðir. Trump skrifaði undir nýja skattalöggjöf í desember sem felur meðal annars í sér meiriháttar skattalækkanir á fyrirtæki og tímabundnar skattalækkanir á einstaklinga.

Hallinn á ríkissjóði Bandaríkjanna nam 215 milljörðum dollara í febrúar síðastliðnum og jókst um 12% milli ára vegna minni tekna og aukinna útgjalda.