Ráðist verður í að innheimta skuldir 40 fyrrverandi starfsmanna Baugs vegna lána sem þeir tóku til að eignast hlut í félaginu.

Frá þessu er greint á vef RÚV en þar eru bréfin sögð einskis virði eftir að félagið fór í þrot en skuldin sem eftir stendur sé meiri en einn milljarður króna. Starfsmönnunum verður nú gert að greiða þessar skuldir, skv. frétt RÚV.

Þá segir að ákvörðunin um að innheimta skuldir starfsmanna Baugs vegna kauprétta hafi verið tekin á skiptafundi í þrotabúi BGE eignarhaldsfélags í morgun. BGE var stofnað sérstaklega til að halda utan um kauprétti starfsmannanna og þeir voru eina eign þess félags.

Nú stendur hins vegar bara eftir skuld sem nemur ríflega milljarði króna og deilist á starfsmennina. Öllum 40 starfsmönnunum verður nú gert að greiða skuldir sínar vegna lánanna.

Eins og áður hefur verið greint frá eru stærstu skuldararnir þeir sem áður voru við æðstu stjórn Baugs, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Stefán Hilmarsson og Gunnar Sigurðsson. Skuldir þeirra eru ríflega helmingur heildarfjárhæðarinnar.

Sjá nánar á vef RÚV.