*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 6. desember 2017 10:10

Skuldir borgarinnar ná 108 milljörðum

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa áhyggjur af mikilli skuldaaukningu á sama tíma og tekjur aukast um 16,2% umfram áætlanir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins segir að þrátt fyrir að rekstur Reykjavíkurborgar sé að lagast, þá sé fyrst og fremst vegna þess að góð staða þjóðarbúsins sé að skila sér í sjóði hennar. Fjölmargar tillögur flokksins um niðurgreiðslur skulda og úthlutun lóða hafa verið felldar af meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

Hins vegar hefur borgarstjórnarflokkurinn áhyggjur af því að skuldir séu að hækka um 8 milljarða á A hluta og 16,4 milljarða á samstæðu A og B hluta á árinu, og að veltufé frá rekstri í borginni er mun minna en meðaltal sveitarfélaga í landinu.

„Reykjavíkurborg fer ekki varhluta af jákvæðri tekjuþróun í þjóðarbúinu eins og sjá má á því að A hluti fer í 117 milljarða í tekjum skv. áætlun fyrir árið 2018 úr 100 milljörðum árið 2016. Það er 16,2% hækkun tekna á tveimur árum,“ segir í fréttatilkynningu frá flokknum.

„Á sama tveggja ára tímabili aukast skuldir A hluta um 28,5% eða úr 83,7 milljörðum árið 2016 í 107,6 milljarða kr. árið 2018.

Það er áhyggjuefni þar sem hagsveiflan er nú við toppinn að Reykjavíkurborg sé ekki að ná betri árangri en 9,4% í veltufé frá rekstri þegar sveitarfélögin í landinu er að meðaltali í 12% veltufé frá rekstri og að skuldir séu að hækka á A hluta um 8 milljarða á milli áranna 2017-2018 og á samstæðu um 16,4 milljarða á milli ára.“

Bendir borgarstjórnarflokkurinn á að hann hafi gert 30 breytingartillögur við síðari umræðu fjárhagsáætlunar. „Örlögum þeirra réð meirihluti Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Þær voru flestar felldar, m.a. tillaga um niðurgreiðslu skulda og athugun á því af hverju áætlanir standast illa. Þá voru tillögur um að koma til móts við heimilislausa felldar.“

Hér má lesa yfir tillögurnar, en í dag birtist yfirlit yfir örlög þeirra. Þar má meðal annars nefna tillaga um að nemendum í Grunnskólum borgarinnar bjóðist að taka kostnaðarlausa framhaldsskólaáfanga, að skólagarðarnir verði endurvaktir, afnám þjónustuskerðingar við sorphirðu, gerð verði greining á tækifærum í notkun sjálfkeyrandi bíla og að úthlutað verði fleiri lóðum sem dæmi.