Lagt verður til á komandi hluthafafundi að heimild stjórnar Icelandair til útgáfu allt að 30 milljarða nýrra hluta í félaginu gildi til 1. september næstkomandi, og að greiða megi fyrir bréfin með skuldajöfnun eða á annan hátt en með lausafé.

Nánari útfærsla greiðslu- og útboðsskilmála verður í höndum stjórnar. Þetta kemur fram í dagskrá fyrir fundinn sem birt var í Kauphöllinni nú fyrir skemmstu, en fundurinn verður haldinn þann 22. maí næstkomandi.

Eins og fjallað hefur verið um hyggst flugfélagið sækja sér allt að 30 milljarða króna með hlutafjárútboði til að standast það reiðarslag sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur verið fyrir félagið, sem og fluggeirann í heild.

Í fyrri tilkynningu um málið í lok apríl kom fram að sóst yrði eftir allt að 200 milljónum Bandaríkjadala, en 30 milljarðar króna jafngilda um 206 milljónum dala á núverandi gengi.

Verði heimildin fullnýtt þynnist eignarhlutur núverandi hluthafa niður í 15,3%, en í tillögunni felst að þeir afsali sér forkaupsrétti á nýútgefnu bréfunum.