*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 20. janúar 2017 14:09

Skuldir eins og spennitreyja

Benedikt Jóhannesson, nýr fjármálaráðherra, segir mikilvægt að vera ekki skuldsett ríki þegar í harðbakkann slær.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Létt var yfir Benedikt Jóhannessyni, nýskipuðum fjármála- og efnahagsráðherra, þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins settist niður með ráðherranum í fjármálaráðuneytinu í byrjun vikunnar til að ræða verkefnin fram undan.

„Þetta leggst ágætlega í mig. Það hafa strax orðið framfarir á mínum stutta ferli sem fjármálaráð­herra. Fimm mínútum eftir að ég tók við lyklinum af fyrrverandi ráðherra sátum við hér á skrifstofunni hvor í sínum stólnum. Þá kemur ráðuneytisstjórinn inn og tilkynnir að lánshæfismat ríkisins hafi hækkað úr B í A. Menn voru augljóslega með þetta á takkanum um leið og þeir sáu að það var kominn nýr ráðherra,“ segir Benedikt og hlær. „Þetta verður mjög skemmtilegt. Ég er spenntur.“

Þó svo að aðeins séu níu dagar síðan Benedikt tók við lyklavöldunum í fjármálaráðuneytinu eru áherslumálin skýr. Í fjármálum hins opinbera á að lækka skuldir ríkisins og í efnahagsmálum verður ráðist í uppbyggingu innviða. Ekki stendur til að hreyfa við umfangi hins opinbera í hagkerfinu. Einnig verður það forgangsmál að endurskoða peninga- og gjaldmiðilsstefnuna á þessu ári. Allt ber þetta að þeim sama brunni að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og efla samkeppnishæfni.

Ríkið hefur hlutverk í hagkerfinu

Spurður hvort ríkisstjórnin væri hlynntari markaðslausnum, við­skiptafrelsi og einstaklingsframtaki en nokkur önnur ríkisstjórn á lýðveldistímanum svaraði Benedikt: „Ríkisstjórnin er hlynnt þessum þáttum, en ef horft er á stefnu okkar frá félagslegu sjónarmiði ætlum við að bæta innviði og velferðarkerfið. Að því leyti berum við merki frjálslyndrar miðjustefnu. Við erum að berjast fyrir jafnvægi og samkeppnishæfum lífskjörum. Við viljum að hér sé gott að búa, fyrir Íslendinga sem og aðra.“

Benedikt segir efnahags- og ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar varfærna. „Við ætlum að halda skattastiginu svipuðu. Það fer aukið fé í ákveðna málaflokka, t.d. heilbrigðismál og almannatryggingar, og í öðrum drögum við saman seglin.

Engin áform eru um að auka ríkisumsvif í hagkerfinu eða draga úr þeim. Þetta er spurning um forgangsröðun og heildarmyndina. Þegar lýðfræðilegar aðstæður breytast eða áföll dynja yfir þarf að grípa inn í og forgangsraða öðruvísi til að rétta úr kútnum, eða jafnvel bæta í hlutverk ríkisins. Ríkið hefur hlutverk í að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu og menn eru farnir að viðurkenna það í stjórnmálum,“ segir Benedikt.

Stefnt er að því að greiða niður skuldir hins opinbera næstu árin þannig að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára.

„Í fjármálastefnunni sem ég mun vonandi leggja fram í fyrstu viku þingsins kemur fram hvernig áformað er að lækka skuldir hins opinbera á hverju ári næstu fimm árin,“ segir Benedikt. „Það er þverpólitísk sátt um að greiða niður skuldir ríkisins í stað þess að nýta aðstæður eins og þær eru núna til að auka óhóflega varanleg ríkisútgjöld. Það verður að greiða niður þessar skuldir svo að hér verði ekki skuldsett ríki í spennitreyju þegar í harðbakkann slær, því hlutirnir geta farið á versta veg þegar minnst varir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.