Exista áætlar að kröfur félagsins á hendur íslenskum bönkum nemi a.m.k. 120 til 140 milljörðum króna.

Að sama skapi skuldar Exista bönkunum um 125 milljarða króna en skuldir félagsins erlendis eru 130 milljarðar króna

Þetta kemur fram í tilkynningu Exista til Kauphallarinnar en Kauphöllin hafði óskað eftir því að Exista birti upplýsingar um kröfur félagsins á hendur íslenskum fjármálastofnunum og vill félagið leitast við að verða við þeirri beiðni.

Í tilkynningunni kemur fram að kröfurnar felast aðallega í innlánum og óuppgerðum samningum þar sem íslenskir bankar eru mótaðilar Exista.

Þá er tekið fram að reikningar Exista eru gerðir upp í evrum en eignir og skuldir félagsins eru samsettar úr fleiri gjaldmiðlum, m.a. íslenskum krónum, norskum krónum og sterlingspundum.

„Stærstur hluti krafna Exista byggir á vörnum félagsins á eigin fé gegn sveiflum í öðrum myntum gagnvart uppgjörsmynt félagsins, evru,“ segir í tilkynningunni.

„Brýnt er að taka fram að á þessu stigi er mikil óvissa um það hvort kröfur Exista fáist greiddar í heild eða að hluta.“

Þá kemur fram að í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins hefur eignum og skuldbindingum íslensku bankanna verið skipt upp í ný félög og dótturfélög og liggur í mörgum tilfellum ekki fyrir að hvaða aðilum kröfur Exista munu á endanum beinast. Einnig ríkir í ýmsum tilvikum töluverð óvissa um heildarfjárhæð endanlegra krafna og við hvaða gengisforsendur verði miðað við endanlegt uppgjör.

Skuldir Exista um 255 milljarðar króna

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að á móti kröfum á íslenskar fjármálastofnanir koma skuldir Exista gagnvart sömu stofnunum sem nema u.þ.b. 125 milljörðum króna.

„Vilji Exista er til þess að ná samkomulagi við íslenska banka um heildaruppgjör skuldbindinga,“ segir í tilkynningunni.

Skuldir Exista gagnvart erlendum lánardrottnum nema samtals um 130 milljörðum króna.

„Exista hefur átt í viðræðum við erlenda lánardrottna um heildarendurskoðun á lánasamningum félagsins í ljósi breyttra aðstæðna,“ segir í tilkynningunni.

„Þær viðræður hafa verið uppbyggilegar og eru í jákvæðu ferli, enda þótt engar niðurstöður liggi fyrir á þessu stigi. Ljóst er að það mun hafa verulega skaðleg áhrif á rekstrarhæfi félagsins fáist kröfur gagnvart íslenskum bönkum ekki greiddar, m.a. er ekki hægt að útiloka að lán félagsins verði gjaldfelld í heild eða að hluta. Sem fyrr ítrekar Exista að eignastaða félagsins er óljós og að veruleg óvissa ríkir um þær tölulegu upplýsingar sem fram koma í tilkynningu þessari.“