Morgundagur ehf., útgáfufélag Fréttatímans, tapaði 2,6 milljónum króna á þeim fjórum mánuðum sem félagið starfaði í fyrra. Eignir félagsins voru metnar á 69 milljónir króna en þar af voru 46,4 milljónir króna ógreiddar skammtímakröfur. Einu skuldir félagsins voru tæplega 19 milljóna króna skammtímaskuldir. Því var eigið fé félagsins jákvætt um 50,4 milljónir króna um síðustu áramót. Þetta kemur fram í ársreikningi Morgundags.

Allt hlutafé Morgundags er í eigu Miðopnu ehf. Eigendur Miðopnu eru Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans (30%), Teitur Jónasson (30%), Óskar Hrafn Þorvaldsson (13%), Valdimar Birgisson (13%), Jónas Haraldsson (9%) og Haraldur Jónasson (5%). Greint hefur verið frá því opinberlega að bandaríski fjárfestirinn Michael Jenkins hafi lánað umtalsverðar fjárhæðir til Morgundags.