Skuldir íslenskra fyrirtækja hækkuðu um 43 milljarða í júní á milli mánaða vegna gengisþróunar krónunnar, samkvæmt upplýsingum greiningardeildar Glitnis.

Greiningardeildin segir að verðgildi krónunnar hafi lækkað um 5,2% í júní og að gengisbundin lán fyrirtækja hafi numið 853 milljörðum króna og aukist um 43 milljarða frá maí síðastliðnum.

?Stærsti hluti þessara lána eru hjá sjávarútvegi og iðnfyrirtækjum sem reikna má með að hafi tekjur í erlendri mynt," segir greiningardeildin.

?Fyrirtæki þessi eru því flest sjálfkrafa varin fyrir gengissveiflum eins og þessum þar sem þau vinna upp á tekjuhliðinni það sem þau tapa á skuldahliðinni við lækkun krónunnar."

Útlán innlánastofnanna numu tæplega 2.910 milljörðum í lok júní og jukust um 97 milljarða á milli mánaða. Greiningardeild Glitnis segir að mestur vöxtur hafi verið í útlánum til fyrirtækja, sem jukust í 1.461 milljarð króna úr 1.407 milljörðum á tímabilinu.