Skuldir íslenskra fyrirtækja hafa núna náð áður óþekktum hæðum enda stuðlar allt að aukinni skuldsetningu þeirra í dag. Í dag nema skuldir íslenskra fyrirtækja við lánakerfið um 1.600 milljörðum króna en þær hafa tvöfaldast á 5 árum.

Aukningin er jöfn landsframleiðslu síðasta árs en skuldirnar eru núna nálega tvöföld landsframleiðsla síðasta árs og er það eitt hæsta hlutfallið í heiminum í dag. Mikið góðæri er í íslensku samfélagi og sjá margir fram á að það verði langvinnt. Fyrirtækin hafa því ákveðið að búa í haginn og fjárfesta til að geta mætt meiri eftirspurn í framtíðinni. Mikið hefur verið um skuldsettar yfirtökur bæði hér innanlands og utan og má því líkja við sprengingu.

Vaxtastig er sögulega séð mjög lágt sem og vaxtaálag og hefur sú staðreynd hvatt til aukinnar lántöku bæði hér heima og erlendis. Þrátt fyrir mikla aukningu skulda er fátt sem bendir til þess að fyrirtækin geti ekki staðið undir skuldabyrðinni. Þannig hefur eiginfjárhlutfall skráðra fyrirtækja verið mjög svipað á síðustu árum eða í kringum 35%. Þó skiptir máli að hlutabréfamarkaðurinn hefur hækkað mikið á síðustu árum og bakslag í hann eða veiking krónunnar hefur neikvæð áhrif á eiginfjárstöðuna og gert fyrirtækin viðkvæmari fyrir áföllum síðar meir.

Ítarleg fréttaskýring er í Viðskiptablaðinu í dag.