Útlán lánakerfisins til atvinnuveganna námu 5.518 milljörðum króna í lok september síðastliðnum eða rétt fyrir hrun bankanna.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun en Greining Glitnis segir þetta nema um fjórfalda áætlaða landsframleiðsla síðasta árs.

Í Morgunkorni kemur fram að skuldir fyrirtækjanna höfðu aukist um 44% frá upphafi árs og mun meira en skuldir heimilanna en þær skuldir jukust um 22% á sama tíma.

„Hröð skuldaaukning atvinnuveganna er ekkert ný á nálinni en í upphafi síðasta árs höfðu skuldir þeirra þrefaldast á fjórum árum,“ segir í Morgunkorni.

„Þessi þróun tengdist skuldsettum kaupum hlutafjár í erlendum fyrirtækjum og beinum yfirtökum erlendra fyrirtækja. Að baki þeim kaupum stóðu oft á tíðum eignarhaldsfélög en um 39% af útlánum bankakerfisins til fyrirtækja í lok september voru til eignarhaldsfélaga.“

Þá kemur fram að skuldir eignarhaldsfélaga höfðu aukist um 71% á árinu. Af útlánum lánakerfisins til innlendra aðila í lok september voru 72% til atvinnuveganna og 25% til heimilanna.

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.