Í skýrslu, sem unnin var fyrir sveitarstjórnir Garðabæjar og Álftaness í aðdraganda sameiningar þeirra, kemur fram að heildarskuldir A- og B-hluta í sameinuðu sveitarfélagi verði 7,8 milljarðar í árslok 2016.

Í samþykktri fjögurra ára fjárhagsáætlun Garðabæjar kemur fram að heildarskuldir í sameinuðu sveitarfélagi verði 8,7 milljarðar í árslok 2016.

Lúðvík Hjalti Jónsson, fjármálastjóri Garðabæjar, segir ástæðu þessa mismunar einfalda. Við gerð fjárhagsáætlunar nú sé gert ráð fyrir mun meiri fjárfestingum en í fyrri áætlun.

„Framkvæma á fyrir 1,2 milljarða árið 2013 og fyrir rúman 1 milljarð árið 2014 og til að standa straum af þessum gríðarlega miklu framkvæmdum er fyrirhugað að taka að láni 550 milljónir árið 2013 og 300 milljónir árið 2014.“