Aðgerðum evruríkja gagnvart Grikklandi er ætlað að lækka skuldir Grikklands í 120% af vergri landsframleiðslu fyrir 2020, að því er Angela Merkel kanslari þýskalands tilkynnti í dag og Financial Times greinir frá. Enn gengur þó erfiðlega að semja við einkaaðila um lækkun krafna þeirra á gríska ríkið.

Talið er líklegt að áætlun leiðtoganna kalli á að eigendur grískra skuldabréfa gefi eftir um helming af kröfum sínum. Alþjóðlegir lánveitendur telja að Grikkland geti náð markmiðum um að skuldir nemi 186% af landsframleiðslu á næsta ári. Samsvarandi hlutfall Þýskalands er 83%.

Ljóst er að leiðtogar evruríkja hafa ekki lokið við að leysa úr skuldavanda Grikklands. Vonir eru bundnar við að afgerandi áætlun verði kynnt á allra næstu dögum. Fundur leiðtoganna hófst í dag og verður fundað áfram í Brussel næstu daga.