Hagar er félag sem skilar verulegu fé frá rekstri en handbært fé frá rekstri á fyrri helmingi ársins nam tæplega 2,3 milljörðum króna. Félagið sat á tæplega þremur milljörðum króna af handbæru fé í lok tímabilsins og hefur þar að auki greitt niður lán um 500 milljónir umfram lánasamninga. Hagar hafa getað greitt hratt niður skuldir á undanförnum misserum.

Nettóvaxtaberandi skuldir námu þannig um 6,8 milljörðum í lok tímabilsins en til samanburðar voru þær um 10,9 milljarðar í lok febrúar 2011. Þá var hlutfallið milli nettóvaxtaberandi skulda og EBITDA 2,5, sem ekki gat talist þung skuldastaða, en nú er þetta hlutfall komið niður í 1,5.