Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað töluvert frá hruni en búast má við enn meiri lækkunum. Þetta segir í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í gær. Hinn 1. ágúst fór fram reglubundin umræða um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í skýrslunni segir að annarsvegar vegna endurreiknings ólöglegra gengistryggðra lána og hins vegar afskrifta bankanna á öðrum lánum hafi skuldir heimila lækkað um 14% og skuldir fyrirtækja lækkað um 45%. Þetta sé meiri lækkun skulda en sést hafi víðast annarsstaðar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir aftur á móti að búast megi við frekari leiðréttingu skulda. Á tíunda áratug síðustu aldar hafi tekið átta ár að niðurfæra skuldir heimilanna og hafi þær lækkað um 30% áður en skuldaniðurfærslunni lauk.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir aftur á móti að skuldaniðurfærslan verði að vera innan þess ramma sem þegar hafi verið markaður. Í skýrslunni er varað við hugmyndum um almenna skuldaniðurfærslu.