Skuldir hins opinbera erlendis eru áætlaðar 125,2 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) fyrir árið 2009, eða um 1.900 milljarðar króna. Til samanburðar þá voru þær 28,7 prósent af VLF í árslok 2007. Reiknað er með að skuldir hins opinberra muni hækka sem hlutfall af landsframleiðslu á næstu árum og ná hámarki í árslok 201 þegar þær verða 135,1 prósent af henni.

Skuldirnar munu í kjölfarið lækka og verða 114,7 prósent af landsframleiðslu í lok árs 2014. Þetta kemur fram í gögnum sem unnin eru upp úr tölum frá Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) studdist við þegar hann endurskoðaði efnahagsáætlun Íslands.

Meiri kostnaður vegna Seðlabanka

Samsetning opinberra skulda er nú með þeim hætti að hluti hennar er vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands, en sú skuld nemur um 18,5 prósent af landsframleiðslu. Í upphaflegri áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) fyrir Ísland var gert ráð fyrir að skuldin vegna Seðlabankans yrði um tíu prósent af landsframleiðslu.

Aðrar helstu skuldir hins opinbera eru tilkomnar vegnar endurskipulagningar sparisjóðakerfisins (um 1,5 prósent af landsframleiðslu), Icesave-samkomulagsins ( um 45 prósent af landsframleiðslu) og skuld vegna endurfjármögnunar nýju bankanna þriggja (áætluð 277 milljarðar króna eða 19 prósent af landsframleiðslu).