Vaxtastig beggja vegna Atlantshafsins hefur farið talsvert lækkandi það sem af er ári og allt frá síðasta hámarki sínu á haustmánuðum 2018. Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa stóð á mánudag í 2,05% og hafði þá lækkað um 0,7 prósentustig frá áramótum og um 1,19 prósentustig frá því krafan náði sjö ára hámarki sínu í nóvember á síðasta ári. Því til viðbótar fór krafan undir 2% í byrjun júlímánaðar og hafði þá ekki verið lægri frá því í nóvember árið 2016. Sömu sögu er að segja í Evrópu en ávöxtunarkrafa 10 ára þýskra ríkisskuldabréfa en nú neikvæð um 0,4% og hefur aldrei verið lægri í sögunni. Þetta þýðir því að fjárfestir borgar þýska ríkinu 0,4% á hverju ári fyrir að lána því fjármagn.

Neikvæðir vextir eru í raun allt umlykjandi í Evrópu og er yfir helmingur allra ríkisskuldabréfa í álfunni með neikvæða ávöxtunarkröfu. Vextir á 10 ára og styttri ríkisskuldabréfum eru neikvæðir í Austurríki, Finnlandi, Svíþjóð, Frakklandi, Belgíu, Slóvakíu auk Japans. Í Hollandi ná neikvæðir vextir til 15 ára bréfa og í Danmörku og Þýskalandi ná þeir til 20 ára bréfa. Þar að auki eru neikvæðir vextir á svissneskum skuldabréfum til 50 ára.

Samtals nemur nafnvirði skuldabréfa á neikvæðum vöxtum í heiminum nú um 13.700 milljörðum dollara samkvæmt vísitölu Bloomberg yfir neikvæða vexti. Upphæðin hefur aldrei verið hærri og hefur aukist um ríflega 130% frá því í október á síðasta ári. Það eru þó ekki einungis ríkisskuldabréf og önnur skuldabréf í fjárfestingarflokki (e. investment grade)   sem bera neikvæða vexti í evrum heldur eru nú skuldabréf 14 fyrirtækja sem eru með matseinkunnina BB, sem telst til ruslflokks, sem bera neikvæða ávöxtunarkröfu og nemur nafnvirði bréfanna rúmlega 3 milljörðum evra. Þeirra á meðal eru skuldabréf fransk-hollenska fjarskiptafyrirtækisins Altice og finnska símaframleiðandans Nokia.

Vaxtalækkanir framundan

Það óhætt að segja að lækkandi vextir og lágt vaxtastig séu ekki nýmæli enda hafa vextir í þróuðum ríkjum nær samfellt farið lækkandi frá sögulegu hámarki sínu í byrjun níunda áratugarins auk þess sem seðlabankar heimsins brugðust við fjármálakreppunni árið 2008 með lækkandi stýrivöxtum og skuldabréfakaupum til þess að örva hagkerfi sín. Lækkandi vaxtastig á síðustu misserum má að mörgu leyti rekja til veikari hagvaxtarhorfa og lækkandi verðbólguvæntinga þó staðan sitt hvoru megin við Atlantshafið sé ekki beint sú sama.

Hagvöxtur á evrusvæðinu nam 1,9% á síðasta ári og dróst saman um 0,5 prósentustig frá fyrra ári. Þá lækkaði Seðlabanki Evrópu hagvaxtarspá sína fyrir evrusvæðið í byrjun júlí um 0,1 prósentustig og gerir nú ráð fyrir 1,4% hagvexti á árinu. Þá gerir seðlabankinn ráð fyrir að verðbólga á svæðinu verði um 1,3% á þessu ári. Þetta þýðir að verðbólga verði áfram undir 2% verðbólgumarkmiði bankans þar sem hún hefur verið síðustu sex ár og verið Mario Draghi fráfarandi seðlabankastjóra þyrnir í augum. Hefur þetta orðið til þess að peningastefnunefnd bankans hefur nú til alvarlegrar skoðunar að hefja skuldabréfakaup á nýjan leik auk þess sem líkur eru á að bankinn lækki stýrivexti sína í september niður fyrir núll til þess að örva hagkerfi evrusvæðisins.

Hagvöxtur í Bandaríkjunum nam 2,1% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi þessa árs og lækkaði nokkuð skarplega frá 3,1% á fyrsta ársfjórðungi. Hagvöxtur í landinu nam 2,9% á síðasta ári en spá Alþjóðabankans gerir ráð fyrir 2,5% hagvexti á þessu ári og 1,7% á því næsta sem má að mestu rekja til spennu í alþjóðaviðskiptum og þeirrar staðreyndar að nú er að hægjast á heimshagkerfinu. Þá nam verðbólga 1,6% á síðustu 12 mánuðum í júní, 0,4 prósentustigum frá 2% verðbólgumarkmiði bankans.

Þrátt fyrir að fara þurfi aftur til miðrar 19. aldar til að finna jafn langt hagvaxtarskeið í Bandaríkjunum og að hlutabréfamarkaðir þar í landi séu í hæstu hæðum lækkaði peningastefnunefnd seðlabankans vexti sína um 0,25 prósentustig á miðvikudag. Er þetta fyrsta vaxtalækkun bankans í rúman áratug en bankinn hefur frá því í desember 2015 til desember 2018 hækkað vexti sína úr 0% í 2,5%. Vaxtaákvörðunin kom þó ekki mikið á óvart enda hafði staða vaxtaskiptasamninga bent til þess 80% líkur væru á 25 punkta lækkun og 20% líkur á meiri lækkun.

Nánar er fjallað vaxtastig í Bandaríkjunum og Evrópu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .