Greiningardeild Kaupþings banka bendir á að skuldir þjóðarinnar hafa aukist um 163 milljarða á einungis tveimur dögum í kjölfar neikvæðrar skýrslu lánshæfismatsfyrirtækisins Fitch Ratings um íslenskt efnahagslíf.

Gengi krónunnar hefur veikst um 6,4% síðustu tvo daga eftir að skýrslan var birt.

"Samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands námu heildar erlendar skuldir þjóðarbúsins 2.543 milljörðum í lok september síðastliðins. Gengi krónunnar er búið að veikjast um 6,4% síðastlina tvo daga og hafa skuldir þjóðarinnar því aukist um 163 milljarða á einungis tveimur dögum sem er um 16,5% af vergri landsframleiðslu," segir greiningardeildin.

?Á móti kemur nema eignir landsmanna í erlendri mynt 1.684 milljörðum og því hafa eignir landsmanna aukist um 108 milljarða. Erlend staða þjóðarbúsins hefur því versnað um 55 milljarða eða um 5,6% af vergri landsframleiðslu."

Greiningardeildin segir að á þriðja ársfjórðungi síðasta árs námu heildar erlendar vaxtagreiðslur þjóðarbúsins 14,1 milljarði eða 56,4 milljörðum á ársgrundvelli og hafa vaxtagreiðslur á ári aukist um 3,6 milljarða ári miðað við veikingu krónunnar síðustu tvo daga