Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu tæpum 14 þúsund milljörðum í lok annars ársfjórðungs. Erlendar eignir námu rúmum 8 þúsund milljörðum króna og  var hrein staða við útlönd neikvæð um 5.700 milljarða króna í lok ársfjórðungsins. Seðlabankinn birtir tölur yfir erlendar eignir og skuldir þjóðarbúsins í dag.

Á milli fyrsta og annars ársfjórðungs lækkuðu nettóskuldir þjóðarbúsins um tæpa 189 milljarða króna. Af frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins tæpum 2500 milljörðum króna og skuldir þess rúmum 3 þúsund milljörðum. Hrein staða er því neikvæð um 561 milljarð króna að þeim undanskildum.

Segir í tilkynningu Seðlabankans að upplýsingar um erlendar eignir og skuldir innlánsstofnanna í slitameðferð séu enn takmarkaðar. Þær séu því að mestu leyti framreiknaðar eins og þær stóðu við þrot þeirra.

Viðskiptajöfnuður óhagstæður

Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 9 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi. Á fyrsta ársfjórðungi var jöfnuðurinn óhagstæður um rúmlega 18 milljarða króna.

Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 32,5 ma.kr. og 13,5 ma.kr. afgangur var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 53 ma.kr.  Halla á þáttatekjum á öðrum ársfjórðungi má rekja til innlánsstofnana í slitameðferð, segir í tilkynningu Seðlabankans.

Reiknuð gjöld vegna innlánsstofnana í slitameðferð námu 40,6 milljörðum króna. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var neikvæður um 31,4 milljarða króna en viðskiptajöfnuður jákvæður um 14,8 milljarða.