Hagvöxtur mældist 7,8% í Kína á síðasta ári. Þótt þetta sé talsvert yfir þeim 2,5% hagvexti sem Seðlabankinn býst við að sjá hér á landi þegar tölur um landsframleiðslu verða næst birtar þá hafa jafn lágar tölur ekki sést í Kína síðan árið 1999. Skuldakreppan á evrusvæðinu, óvissa í alþjóðahagkerfinu og aðgerðir kínverskra stjórnvalda til að kæla ofhitnun í fasteignamarkaðnum heima fyrir skýr hagþróunina.

Breska dagblaðið Financial Times segir niðurstöðuna betri en gert hafi verið ráð fyrir. Það skýrist ekki síst af því að kínverski seðlabankinn slakaði verulega á fjárhagslegu aðhaldi auk þess sem stjórnvöld dældu fjármunum í vegalagningu, lagningu járnbrauta og vatnsveita um mitt ár þegar útlit var fyrir um verulegan samdrátt í hagkerfinu.

Í umfjöllun blaðsins segir m.a. að ekki sé víst hvort aðgerðir stjórnvalda dugi til. Hættumerkin séu enn til staðar í kínversku hagkerfi, ekki síst vegna skuldasöfnunar héraðsstjórna sem hafi ausið fjármunum í ýmis verkefni til að halda hagvexti uppi.