Talið er að skuldir þrotabús Loftorku Borgarnesi ehf. nemi nálægt fimm milljörðum króna samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Stærstu kröfueigendur eru fjármálastofnanir sem eiga veð í rekstri og eignum.

Eigendur Loftorku óskuðu eftir gjaldþrotaskiptum 28. júní sl. Að sögn Eiríks Elís Þorlákssonar skiptastjóri þrotabúsins, hafa átta tilboð borist í eignir búsins, ýmist í eignir og rekstur í heild eða einstaka hluta þeirra. Sum tilboðin munu miðast við starfsemina á Akureyri en félagið var bæði með starfsemi í Borgarnesi og Reykjavík. Að sögn Eiríks er nú unnið að því að gera verðmæti úr þeim eignum sem eru í búinu og hefur reksturinn verið leigður félaginu Gesti ehf.

Í kjölfar þess hefur verið opnað fyrir símsvörun á skrifstofu Loftorku í Borgarnesi og sala hafin á rörum, blautsteypu og fleiru. Gestur ehf. hefur ráðið hluta af starfsmönnum félagsins til að sinna þessum verkefnum. Áformað er að þrotabú Loftorku ljúki við þau verk sem starfsmenn Loftorku voru að vinna við þegar fyrirtækið varð gjaldþrota.

Félagið hefur verið alhliða framleiðslu- og verktakafyrirtæki á sviði mannvirkjagerðar og hefur sérhæft sig í framleiðslu á forsteyptum hlutum úr steinsteypu í mannvirki og steinrör í holræsi.  Félagið var stofnað í mars 1962. Starfsemin hefur farið fram að Engjaási í Borgarnesi, á Akureyri og á Esjumelum á Kjalarnesi.