Rekstur MotorMax er við það að stöðvast en skiptastjóri félagsins hefur rekið það síðan óskað var eftir gjaldþrotaskiptum 13. maí síðastliðin. Kröfulýsingafrestur hefur verið auglýstur og má gera ráð fyrir að honum ljúki í lok júlí.

Að sögn Þorsteins Einarssonar hrl. og skiptastjóra félagsins eru skuldir þess um einn milljarður króna. Ákveðið var að halda starfsemi áfram en rétt fyrir gjaldþrotið voru vörur félagsins seldar með allt að 70% afslætti. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins nam velta félagsins á síðasta ári um einum milljarði króna en tap af rekstri var 460 milljónir króna.

Á næstu dögum skýrist hverjir taka við umboðum MotorMax. Toyota bjó til félagið árið 2006 með því að sameina margvíslega starfsemi undir merki MotorMax. Einnig var Yamaha-umboðið sett þar inn sem var fyrir í eigu Toyota þegar aðskilnaður varð á milli starfsemi umboðsins og Arctic Trucks jeppabreytingafélagsins. Félagið keypti síðan verslun Gísla Jónssonar og sameinaði félaginu sem velti um milljarði króna þegar best lét. Segja má að uppgangur félagsins hafi tengst auknum áhuga á jaðarsportsíþróttum af ýmsu tagi en félagið seldi mótorhjól, fjórhjól og snjósleða.

Landsbankinn var búinn að vera með félagið í sölumeðferð án árangurs áður en félagið fór í gjaldþrot. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins kemur fram að vinna við standsetningar og afhendingar seldra tækja standi yfir og verður haft samband við kaupendur.