*

laugardagur, 16. október 2021
Erlent 26. maí 2020 09:40

Skuldir OECD ríkja hækka um 28%

Skuldir ríkissjóða aðildarríkja í OECD hafa hækkað um 17 billjónir dollara samkvæmt nýju mati.

Ritstjórn
EPA

Skuldir þróaðra ríkja gætu hækkað um 17 billjónir dollara vegna björgunarpakka og verulegs samdráttar skatttekna sökum efnahagsáhrifa heimsfaraldursins, samkvæmt nýju mati OECD. Financial Times greinir frá. 

Samtökin búast við að meðaltal skulda ríkissjóða OECD þjóðanna munu hækka úr 109% í 137% af vergri landsframleiðslu. Skuldirnar gætu aukist frekar ef efnahagslegur bati af faraldrinum verður hægari en hagfræðingar vænta. 

Hinar auknu skuldir ríkissjóðanna jafngilda um 13.000 dollurum eða 1,85 milljónir íslenskra krónum á hvern einstakling sem býr í OECD ríki en heildarfólksfjöldi þeirra nemur um 1,3 milljörðum manna. 

Hið nýja mat vekur upp spurningar varðandi langtíma sjálfbærni hárra skulda bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, segir Randall Kroszner, prófessor í hagfræði við Chicago Booth School of Business. „Við verðum að sætta okkur við þann raunveruleika að afturbatinn verður ekki V-laga,“ segir Kroszner.

Ríkissjóðir gætu brugðist við hærri skuldum með því að hækka skatta eða skera niður útgjöld ríkissjóðs en fáir hafa áhuga á frekari skerðingum. Hagfræðingar vara við að neikvæð áhrif slíkrar skerðingar gætu skyggt á minni útgjöld. Magnbundin íhlutun og lægri stýrivextir hafa þó leitt til lægri vaxtakostnaðar ríkissjóða. 

Stikkorð: OECD