Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar munu hækka verulega ef tekið er mið af fimm ára áætlun sem gerð var fyrir ári síðan en þá sést að skuldir munu aukast um 38 milljarða króna út árið 2022.

„Hér er um óheyrilegar fjárhæðir að ræða sem sýnir að viðreistur meirihluti ætlar ekki að efna kosningaloforð sín um lækkun skulda,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Enn fremur vekur það athygli að fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir 16 milljarða lakari rekstrarniðurstöðu en gert var ráð fyrir á síðasta ári. Þá verða viðbótarvaxtargjöld samkvæmt fimm ára áætlun átta milljörðum hærri en áður var ráðgert.

Vaxtakostnaður hækkar um 8 milljarða

„Vaxtakostnaður hækkar frá síðustu áætlun um heila tvo milljarða á ári, eða átta milljarða á kjörtímabilinu. Fyrir þessa blóðpeninga væri hægt að byggja meira en 11 sex deilda leikskóla í hæsta gæðaflokki; gæðaflokki A, sem myndu rúma um 1.400 börn. Þá væri hægt, fyrir þennan mismun, að létta skattbyrðina  á borgarbúa um 60 þúsund krónur á hvert heimili árlega,“ segir Eyþór.

Að sögn Eyþórs munu álögur á borgarbúa þyngjast verulegu á næsta ári.

„Launaskattar verða áfram í hámarki og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hækka um rúm 16% í  krónum talið,“ segir hann.

Eyþór segir tekjur á seinni hluta spátímabilsins mjög háðar hagsveiflunni sem nú hægist verulega á að hans sögn.

„Ekki er nein hagræðing á rekstrarkostnaði þvert á móti hækkun umfram verðlag. Ekki er tekið á strúktúrvandanum í góðæri. Þetta þýðir að það verður mun erfiðara að mæta áföllum,“ segir Eyþór.

Leggja til hagræðingu í rekstri

„Nú ætti að hagræða, sameina svið og safna í varasjóð. Við leggjum til hagræðingu í rekstri en þar er tækifæri til hagræðingar upp á milljarða króna. Þá viljum við selja burt áhættufjárfestingu borgarinnar í stað þess að fara í ný verkefni þar sem áhættan er borgarinnar og ábatinn hjá öðrum. Ekki fleiri bragga. Ekki fleiri áhættuverkefni þar sem einkaaðilar hagnast á kostnað skattgreiðenda,“ segir Eyþór og bætir við að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins leggi til lækkun útsvars en útsvar í Reykjavík er í lögleyfðu hámarki og leggst þungt á launafólk.

Þá segist Eyþór vilja lækka fasteignaskatta á atvinnulífið sem og að lækka fasteignaskatt á eldri borgara með því að hækka tekjuviðmið afsláttar.

„Einnig leggjum við til lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði. Jafnframt viljum við minnka jaðarskatt og skerðingar á eldri borgara og hækka tekjuviðmið afsláttar þannig að eldri einstaklingur með fimm milljónir fái 100% afslátt af fasteignaskatti. 50% afsláttur verði  veittur til samskattaðra sem hafa tekjur upp að 8,6 milljónum.“