Gróflega er áætlað að skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga hafi numið allt að 240 milljörðum króna við árslok 2008, að sögn Gunnlaugs A. Júlíussonar, sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Endanlegar tölur liggja þó ekki fyrir. Til samanburðar voru þær 198 milljarðar í árslok 2007.

Inni í þessum tölum eru langtíma- og skammtímaskuldir, lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar utan efnahags, þ.e.a.s. skuldbindingar vegna einkaframkvæmda.

Síðastnefndu skuldbindingarnar námu um 44 milljörðum í árslok 2007 og að sögn Gunnlaugs má gróflega áætla að þær hafi numið um 50 til 55 milljörðum í árslok 2008.

Tekjur sveitarfélaga námu samtals um 163 milljörðum árið 2007 en reiknað er með því að þær hafi verið um 165 til 170 milljarðar á síðasta ári.

Nánar er fjallað um stöðu sveitarfélaganna í Viðskiptablaðinu í dag.