Félagið Ólafsfell ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta að ósk stjórnar félagsins. Samkvæmt frumvarpi sem lagt var fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur eru skuldir Ólafsfells tæpir tveir milljarðar króna en félagið átti meðal annars hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Skuldir félagsins eru einkum við Samson eignarhaldsfélag og Björgólf Guðmundsson, aðaleiganda félagsins.

Að sögn Jóhannesar Ásgeirssonar hrl., sem hefur verið skipaður skiptastjóri, eru eignir búsins litlar. Það á þó kröfur á Eddu Printing, sem rekur prentsmiðju í Pétursborg, upp á tvær milljónir króna og einnig kröfur á Eddu útgáfu. Þá á búið 12 milljóna króna kröfu á Frétt ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins.

Að sögn Jóhannesar eru eignir búsins hlutabréf í félögum sem virðast vera eignalaus, svo sem Forsíðu sem einnig átti í Árvakri. Einnig á félagið hlut í Hansa ehf. sem er í greiðslustöðvun en það á enska úrvalsdeildarfélagið West Ham.