Skuldasöfnun ríkissjóða Íslands og Írlands hefur verið mikil á árunum eftir hrun en ástæðurnar eru mismunandi og kemur Ísland ekki vel út úr þeim samanburði, að því er segir í nýlegri ritgerð hagfræðiprófessorsins David Howden.

Vegna þeirrar ákvörðunar írsku stjórnarinnar að fyrst ábyrgjast skuldir bankanna og svo dæla í þá fé til að forða þeim frá þroti hefur írska ríkið haldið áfram að safna skuldum. Ólíkt Íslandi, sem setti eina háa fjárhæð í nýju bankana, hefur írska ríkið ítrekað þurft að hlaupa undir bagga með þarlendum bönkum og því hefur skuldsetning írska ríkisins aukist.

Ástæður halla í ríkisfjármálum á Íslandi og þar með aukinnar skuldsetningar ríkisins koma í raun bankahruninu ekki við nema að hluta til. Vissulega lækkuðu skatttekjur ríkisins í kjölfar hrunsins, einkum tekjur af fyrirtækja- og fjármagnstekjuskatti. Á hinn bóginn segir Howden að útgjöld hafi ekki verið skorin niður í samræmi við minnkandi tekjur og að það sé pólitísk ákvörðun. Ísland hafi svigrúm til að skera niður sem Írland hefur ekki nema að hluta til vegna þess hvernig Írland tók á sínu bankahruni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.