Síðastliðna tólf mánuði hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um rúma 88 milljarða króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þá er hlutfall hreinna skulda ríkissjóðs af landsframleiðslu nú 24% en árið 2013 var það 52%.

Í ágúst 2013 skuldaði ríkissjóður 1.451 milljarð en nú nema skuldirnar 858 milljörðum króna. Skuldirnar hafa að nafnvirði lækkað um tæpa 600 milljarða króna.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið að ástæðan fyrir því hversu hratt gangi að greiða niður skuldir ríkisins skýrist að langstærstu leyti á sölu ríkisins á Arion banka og inngreiðslu á skuldabréf ríkisins vegna bankans. Þeim fjármunum hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á skuldum ásamt því að ganga lítillega á inneign ríkisins hjá Seðlabankanum.