Áætlað er að hreinar skuldir ríkissjóðs hafi í árslok 2008 numið 442 milljörðum króna. og að hrein staða ríkissjóðs hafi verið neikvæð um 263 milljarða króna eða um 16,1% af vergri landsframleiðslu að því er kom fram í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að skuldirnar munu vera komnar í 104% af landsframleiðslu í lok næsta árs. Aukningin er 75 prósentustig og er það mesta stökkið í skuldum sem sést meðal ríkja EES á þessu tímabili fjármálaóstöðugleika. Í Morgunkorni Glitnis í gær kemur fram að skuldatryggingaálag íslenska ríkisins er, m.a. á grundvelli væntinga um þessa þróun, afar hátt í samanburði þróaðra ríkja og stendur nú í 949 punktum. Að sama skapi hafa lánshæfismatsfyrirtæki lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hratt undanfarið.

Greiningardeild Glitnis bendir á að geta ríkisins til að greiða niður skuldir á næstu árum sé líka nokkuð góð. Í samanburði milli EES ríkjanna hefur íslenska ríkið það m.a. með sér að lífeyrissjóðakerfið hér á landi er afar öflugt og íslenska þjóðin ung. Þá eru auðlindir hér miklar og hagkerfið afar sveigjanlegt segir greiningardeild. Með markvissum aðgerðum ætti að vera að hægt að greiða skuldirnar nokkuð hratt niður. Reiknar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með því að skuldahlutfallið verði komið niður í 93% af landsframleiðslu árið 2013.