Ríkisendurskoðun birti í dag nýja skýrslu um skuldamál ríkisstofnanna en þar kemur fram að skuldir ríkisstofnanna hafa vaxið verulega undanfarin ár.

Skýrslan er eftirfylgniskýrsla vegna skýrslu sem stofnunin gerði árið 2012 þá lagði Ríkisendurskoðun fram ýmsar endurbótatillögur. Skýrslan fjallar einungis um skuldir ríkisstofnanna en hún tók ekki til skulda ríkissjóðs, safn-, framkvæmda- eða millifærsluliða í fjárlögum eða Vegagerðarinnar.

Í fyrri skýrslu kom fram að skuldir ríkisstofnanna hefðu aukist um 45% á tímabilinu 2007-2011. Algengasta ástæðan var langvarandi hallarekstur þrátt fyrir að ríkisstofnunum sé óheimilt að stofna til skuldbindinga umfram heimildir fjárlaga nema þær rúmist innan reglna um láns- og reikningsviðskipti.

Í skýrslu ársins 2012 var fjórum ábendingum beint til fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjársýslu ríkisins

Ráðuneytið var hvatt til að efla eftirlit sitt með efnahag ríkisstofnana og móta samræmdar reglur um viðbrögð við skuldasöfnun þeirra og að fylgja því eftir að fagráðuneyti sinntu betur eftirliti með fjárreiðum undirstofnana sinna.

Fjársýslan var hvött til að fylgja því eftir að ríkisstofnanir færðu bókhald sitt í samræmi við reglur þannig að það gæfi ávallt sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu þeirra og að gera skýra kröfu um að stofnanir fylgdu reglum um færslu vörslufjár og endurgreiðslu á handbæru fé.

Ekki ástæða til að ítreka ábendingar, aukin skuldasöfnun sé samt áhyggjuefni

Ríkisendurskoðun segir að í ljósi þróunar mála, einna helst frumvarps til laga um opinber fjármála sem er nú til umfjöllunar á Alþingi sé ekki tilefni til að ítreka þessar ábendingar.

Þrátt fyrir að ábendingarnar séu ekki ítrekaðar, þá bendir Ríkisendurskoðun á að enn þurfi að taka málið fastari tökum. Skuldir ríkisstofnanna séu enn að aukast en skuldir ríkisstofnanna námu 25 milljörðum króna  í lok árs 2014 og jukust um 21% frá árslokum 2011.

Viðskiptablaðið fjallaði um málið i sumar en þar kom fram að nokkrar ríkisstofnanir skuldi tugi milljóna í yfirdrátt þó  að við því sé að við því sé blátt bann í reglum um lánsviðskipti ríkisstofnana.