Í umsögn Arion banka um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðigjald er jafnt hrósað, gagnrýnt og bent á mögulegar lausnir á mörgum vanköntum frumvarpanna. Meðal þess sem fjallað er um er skuldastaða fyrirtækja í sjávarútvegi og hvaða fyrirtæki breytingarnar kunni að koma verst við.

Eins og margir hafa áður bent á eru það skuldsett fyrirtæki sem koma til með að lenda í mestum erfiðleikum. Útreikningar bankans sýna að minni og meðalstór fyrirtæki eru talsvert skuldsettari að meðaltali en þau sem stærri eru.

„Ef ársreikningar 8 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna fyrir árið 2009 eru skoðaðir kemur t.a.m. í ljós að þrátt fyrir að vera handhafar um 50% fiskveiðikvótans bera þau aðeins ábyrgð á þriðjungi skulda geirans í heild. Ef tekið er mið af skuldsetningu á hvert þorskígíldistonn þá má segja að skuldsetning minni útgerða samsvari tvöfaldri skuldsetningu þeirra stærri.“

Í umsögninni kemur jafnfram fram að skuldir sjávarútvegsins jukumst um rúmlega 70% milli áranna 2007 og 2008, í krónum talið, en skuldir 8 stærstu fyrirtækjanna aðeins um 35%.

„Meðalstórar og minni útgerðir hafa því hlutfallslega tekið á sig talsvert meira högg í kjölfar hrunsins.“ Bankinn telur fjárfestingaþörf þessara fyrirtækja töluverða þar sem lítið svigrúm hafi verið til fjárfestinga á síðustu árum eftir að greitt hafi verið af skuldum.

Því segir bankinn veiðigjaldið, sem verður 60% af reiknaðri auðlindarentu og hækkar svo upp í 70% á þremur árum, of hátt og hækka of skarpt.

„Bankinn telur að heppilegra hefði verið að byrja á mun lægri skattprósentu og endurskoða álagninguna að ákveðnum tíma liðnum. Þannig væri gefið svigrúm til næstu ára til fjárfestinga í tækjum og skipastóli sem setið hefur á hakanum á undanförnum árum. Eins og gjaldið er kynnt í frumvarpinu er svigrúm til fjárfestinga skert umtalsvert sem líklegt er að muni leiða til þess að nauðsynleg endurnýjun á fiskiskipaflotanum verði erfið.“