Skuldir Skipta sem undir eru í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem er að hefjast hjá fyrirtækinu hlóðust ofan á það að mestu við skuldsett kaup Exista á Landssímanum árið 2005. „Að stofni til er þetta fjármögnun frá þeim tíma,“ segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta. „En margt hefur gerst síðan þá; erlend lán hafa hækkað, hagnaður hefur verið af ákveðnum viðskiptum sem hefur verið nýttur til að greiða þetta niður og fjármagn verið sett í reksturinn.“

Skuldirnar nema 62 milljörðum króna og skiptast í sambankalán sem er á gjalddaga í desember á þessu ári og skuldabréfaflokk sem er á gjalddaga í apríl á næsta ári.

Hugsanlegt að breyta skuldum í hlutafé

Steinn Logi segir viðræður við lánardrottna ekki hafnar. Engu að síður hafi sambankahópurinn verið upplýstur um málið auk þess sem skuldabréfaeigendur viti hver staðan er. Fram kom í tilkynningu frá Skiptum fyrr í dag að líklegt verði að tillögurnar muni liggja fyrir á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi. Þær munu líklega fela í sér að óskað verði eftir því við eigendur skráðra skuldabréfa að þeir fallist á skilmálabreytingar á skuldabréfunum og/eða breytingu á skuldum í hlutafé.

Steinn Logi er bjartsýnn á að viðræður gangi vel.

„Grundavallaratriðið er rekstrarbatinn. Það má segja sem svo að við höfum á síðastliðnu ári aukið verðmæti Skipta um 25 til 30 milljarða króna,“ segir hann en áætlað er að rekstrarhagnaður fyrirtækisins hafi numið um 8 milljörðum króna í fyrra samanborið við 5,2 milljarða í lok árs 2010.