Afkoma Smáralindar var jákvæð um 1.034 milljónir á síðasta ári, sem er viðsnúningur frá fyrra ári. Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, segir að bætta afkomu megi fyrst og fremst rekja til endurskipulagningar og hagræðingar í rekstri.

Félagið var á síðasta ári endurfjármagnað með verðtryggðum lánum frá Landsbankanum og Íslandsbanka. Öll erlend lán voru greidd upp. Eigið fé félagsins var aukið um 3 milljarða um síðustu áramót og eiginfjárhlutfallið í árslok var 40%.

Í tilkynningu segir að lausafjárstaða sé sterk og hún verði nýtt til frekari uppbyggingar. Öll leigurými verslunarmiðstöðvarinnar eru í útleigu. Smáralind er í eigu fasteignafélagsins Regins, dótturfélags Landsbankans.

Sturla Eðvarðsson
Sturla Eðvarðsson
© BIG (VB MYND/BIG)
Sturla Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, er ánægður með rekstur verslanamiðstöðvarinnar eftir hagræðingu og fjárhagslega endurskipulagningu.