*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 25. ágúst 2020 18:50

Skuldir vaxa um 850 milljarða

Gert er ráð fyrir allt að 10,5% rekstrarhalla ríkissins, með 3% óvissumörkum, árið 2022 sökum áhrif af heimsfaraldrinum.

Alexander Giess
Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra.
Eyþór Árnason

Útlit er fyrir að brúttóskuldir hins opinbera muni vera 51% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2020 og haldi áfram að vaxa og verði 59% í árslok 2022. Hlutfallið nam rúmlega 36% í lok árs 2019 og nemur skuldaaukningin yfir þriggja ára tímabilið því um 23% af VLF eða um 850 milljarðar króna að nafnvirði. Frá þessu er greint í þingályktunartillögu að uppfærði fjármálastefnu sem dreift var á vef Alþingis.

Til samanburðar jókst skuldaaukning hjá hinu opinbera í kjölfar bankahrunsins árið 2008 um 58% af VLF frá árslokum 2007 til ársloka 2010. Árið 2007 námu brúttóskuldir 27% af VLF sem náðu hámarki árið 2011 í 92%.

Enn fremur kemur fram í tillögunni að „þótt stefni í að skuldastaðan verði betri nú en eftir bankahrunið þá gat ríkissjóður með umframarðgreiðslum og stöðugleikaframlögum greitt skuldir hratt niður samhliða því sem hagvöxtur tók við sér.“ 

Slíkt á ekki við í þeirri stöðu sem uppi er núna. Ríkissjóður getur einungis reitt sig á jákvæða greiðsluafkomu og hagvöxt til að greiða niður skuldir og því má ætla að það muni taka lengri tíma að stöðva skuldasöfnun en áður.

Verulegt óvissusvigrúm

Gert er ráð fyrir að halli á afkomu ríkissjóðs verði ekki meiri en 11% af VLF árið 2020. Afkoman fari síðan batnandi og nemi ekki meira en 9% af VLF árið 2021 og 7% af VLF árið 2022. Verg landsframleiðsla Íslands var tæplega 3.000 milljarðar króna árið 2019.

Hins vegar vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir um efnahagsframvindu er gert ráð fyrir óvissusvigrúmi sem nemur 2% af VLF árið 2020 og 3% af VLF árin 2021-2022. Því er markmið ríkisins að halli verði að hámarki 10,5% af VLF árið 2022 með óvissusvigrúmi. Þau óvissumörk byggjast á niðurstöðu dekkri sviðsmyndar fjármála- og efnahagsráðuneytisins um afkomuþróun hins opinbera.

Markmið um afkomu sveitarfélaga eru þau að skuldir sveitarfélaganna verði ekki meiri en 7% af VLF árið 2020 og 8% af VLF árin 2021-2022. Halli á afkomu sveitarfélaganna á ekki að vera meiri en 1,5% af VLF árið 2020, 1% af VLF árið 2021 og 0,5% af VLF árið 2022.

Þetta er í annað sinn á kjörtímabilinu sem fjármálastefnan er endurskoðuð en það var einnig gert í júní 2019 í kjölfar kólnunar í efnahagskerfinu og falls Wow air. Vanalega er fjármálastefnan lögð fram af nýrri ríkisstjórn í upphafi kjörtímabils og ætlað að vara til fimm ára eða allt þar til kosið er að nýju. Þetta er hins vegar í þriðja sinn sem tillaga til áætlunar er lögð fram.